onsdag den 8. juni 2011

En mig langar bara heim, ¡Por favor!

Ég gisti í flugherbúðum í Mar del Plata þar sem Marcos var að vinna. Það var virkilega skrýtið að sitja til borðs með hermönnum sem höfðu byssur á sér og allar græjur. Ég gerði ekki mikið í Mar del Plata en skellti mér í hræðilega næturköfun og rölti um bæinn og markaðinn. Síðasta kvöldið mitt þar var ég að skoða rútur og reyna að setja restina af ferðalaginu mínu í Argentínu saman og allt í einu gafst ég bara upp. Þetta var of mikið. Síðasta mánuðinn hafði ég fundið fyrir smá þreytu en allt í einu varð allt bara of mikið. Mig langaði mest upp í næstu flugvél heim. Ég fór að hugsa út í það að fara fyrr yfir til Perú og flýta jafnvel för minni heim. Eftir Mar del Plata fór ég til Iguazú (fossanna á landamærum Argentínu, Paraguay og Brasilíu). Ég eyddi einum degi í þjóðgarðinum og fór meðal annars í bátsferð undir úðann af fossunum. Iguazú eru einstaklega fallegir fossar og umhverfið í kring er magnað. Ég stökk svo aftur upp í rútu til Buenos Aires í von um að ná flugi til Cusco þarnæsta dag. Eftir mikið stress, mikið vesen og fullt af misvísandi símtölum náði ég ekki að kaupa flugið og varð því að bíða 3 daga eftir næsta flugi. Ég var ekki alveg í standi fyrir þetta allt saman en hélt að þetta væri síðasta vesenið svo ég lét það bara vera. Ég var svo heppin að gista hjá tveimur vinum í Buenos Aires sem sýndu mér borgina. Buenos Aires er skemmtileg borg og ég væri alveg til í að sjá meira af henni seinna. Síðustu dögunum í Argentínu var aðallega eytt í hinum og þessum görðum borgarinnar lesandi og japlandi á páskaeggi (ég var mjög ánægð að finna eitt slíkt svona yfir páskana) þar sem ég nennti varla að skoða mikið. Annan í páskum flaug ég svo yfir til Cuzco með millilendingu í Santa Cruz og La Paz. Ég þurfti að eyða nóttu á flugvellinum í La Paz. Mér byrjaði strax að líða rosalega illa og fékk mikinn hausverk. Ég komst svo að því seinna að ég var í hæstu borg heims og það sem hrjáði mig var háfjallaveiki. Nóttin leið mjög hægt og mig langaði mest bara að fara að gráta-ég var komin með nóg af öllu þessu. En við tók ótrúlega falleg flugferð yfir til Cusco sem bætti algerlega upp fyrir nóttina, mér leið helst eins og ég hefði keypt mér ferð í útsýnisflug. Í Cusco gisti ég hjá æskuvini Fanyar [Fyrir þá sem ekki vita er Fany, kona Ívars bróður míns, frá litlum bæ nálægt Cusco og bjó í Cusco lengi]. Ég hitti Lourdesi fyrsta daginn sem var virkilega gaman. Á sunnudeginum kíktum við saman til Yanaoca (heimabæjar Lourdesar og Fanyar) og heilsuðum upp á fjölskylduna. Mér var tekið opnum örmum og allir voru voða spenntir að hitta mig. Mér var boðið upp á morgunmat og morgunmat nr. 2 og stuttu seinna hádegismat. Þegar naggrísinn var settur á borðið var ég við það að springa en smakkaði hann að sjálfsögðu eftir allar sögurnar sem ég hef heyrt. Ég get ekki sagt að hann hafi bragðast voða vel og nýtti mér svolítið fulla magann minn til afsökunar og borðaði ekki mikið af honum. Það var mjög áhugavert að sjá hvernig þau lifa, manni leið svolítið eins og manni hefði verið kippt aftur til fortíðar (fyrir utan farsímana sem þau áttu). Daginn eftir byrjaði á spænskunámskeiði. Ætlunin var að taka námskeið í viku og sjá hvernig mér líkaði. Ég fékk yndislegan kennara og lærði mikið og naut lífsins í Cusco. En eitthvað kallaði á mig. Þrátt fyrir að mér liði vel og þessi þreyta væri að mestu farin var Frónið farið að kalla. Hugmyndin um að fara fyrr heim hafði setið í höfðinu mínu í langan tíma og mér var satt að segja farið að líka vel við þá hugmynd. Ég vissi líka að ég hafði ekki orku í meira vesen, ef eitthvað kæmi upp á þá myndi ég ekki orka það. Eftir miklar vangaveltur ákvað ég að flýta flugunum mínum. En enn og aftur virtist ekkert virka en ég rétt náði að redda breytingunni fyrir helgarfríið og átti miða frá Lima til NY á miðvikudeginum. Við Lourdes ákváðum að skella okkur til Machu Picchu yfir helgina og skoða Inkarústirnar. Við skemmtum okkur vel og nutum okkar í fallegri náttúrunni þar sem við skiptumst á að ganga um og leggja okkur í grasinu. Á mánudeginum kvaddi ég Cusco og fór í 21 tíma rútu til Lima og átti að koma 3 eftir hádegi daginn eftir (þriðjudag) og hafa því sólarhring fyrir flugið mitt. Um hálf 1 leytið á þriðjudeginum leit ég út um gluggann og eitthvað voru aðstæðurnar kunnuglegar og minntu mig á Kenya. Rútur og vörubílar stopp við vegarkantinn-plís, ekki vera verkfall! Því miður var verkfall. Enginn vissi hversu lengi þetta myndi standa yfir en allir voru þó vissir um að þetta væri ekki lengur en 3-4 tímar og góða besta ég myndi nú alveg ná fluginu mínu. 3 og 4 tímar liðu og ekkert gerðist en um hálf 7 leytið fóru hlutirnir að gerast, ég myndi þá ná fluginu mínu eftir allt saman. Rútubílstjórinn sagði okkur að draga fyrir gluggatjöldin, mótmælendur væri að grýta rúturnar. 2 steinar flugu inn hjá okkur en enginn slasaðist sem betur fer. Rútan keyrði hægt og stoppaði oft. Klukkan hálf 10 vorum við stopp mjög lengi og allir voru farnir út. Framundan var allt stopp. Ég spurði rútubístjórann hverjar horfurnar væru og hann sagði mér að við kæmum til Lima í síðasta lagi snemma næsta dag og að ég þyrfti engar áhyggjur að hafa af fluginu mínu. Ég var vægast sagt mjög stressuð og ákvað að fara að sofa og róa mig aðeins þar sem ég gat hvort eð er ekkert gert. Klukkan hálf 7 næsta dag vorum við enn stopp á sama stað. Ég var búin að missa af fluginu þar sem ég þurfti að vera í Lima eftir nokkra klukkutíma og engar horfur voru á neinni hreyfingu. En nokkrir í rútunni tóku sig til og ákváðu að ganga í gegnum mótmælin svo ég slóst í för með þeim. 2 tíma ganga og frá hinum endanum var 2 tíma rútuakstur til Lima-flott! ég var þá bara í góðum tíma. Eftir klst göngu mættum við fólki sem hafði verið á göngu í tæpa 4 tíma frá hinum endanum. Við hertum á gönguna og á endanum ákvað ég að skella mér aftan á mótorhjól sem gengu á milli "brúanna". Ég náði að spara mér nokkurn tíma með tveimur þannig og komst á rútustöðina klukkan 10. En þar var eins og hálfs tíma bið í rútu þar sem ég var ekki sú eina sem datt í hug að labba. Ég þorði ekki að taka áhættuna þar sem ekki mættu miklu út af bregða til þess að ég myndi missa af fluginu og ef ég þekkti Perúbúa rétt voru líklega meira en 2 tímar með rútu til Lima. Ég tók því leigubíl til næsta bæjar þar sem lítil bið var og komst til Lima korter í 2, prentaði út flugmiðann minn og hoppaði í næsta leigubíl upp á völl. Ég hló þegar ég sá flugvöllinn, trúði ekki að mér hafði tekist þetta. Að morgni næsta dags lenti ég í NY. Ég hafði ætlað að tala við frænku mína þegar ég var í Lima til að fá heimilisfang hennar og símanúmer í Bandaríkjunum þar sem ég ætlaði að vera hjá henni. Þar sem ég rétt náði fluginu tókst það augljóslega ekki og þegar ég kom að landamæravörðunum hafði ég ekkert heimilisfang í höndunum. Ég reyndi að útskýra fyrir manninum hver staðan væri og að ég gæti auðveldlega hringt heim til Íslands og fundið út úr því. En maðurinn var með svakaleg leiðindi og sagði að ég færi ekki út af flugvellinum án heimilisfangsins. Ég brotnaði niður fyrir framan hann, þreytt eftir svefnlausa nótt og viðburðaríka 2 daga. Eftir mikið vesen hleypti hann mér í gegn en ákvað að ljúga að mér að lestin til Rochester (þar sem Svanhildur býr) væri biluð og gengi ekki fyrr en daginn eftir. Ég eyddi því miklum tíma í að leita að flugi til Rochester þangað til að ég komst að því að lestin væri í fínu lagi. Ég fór því í flýti á lestarstöðina og náði lestinni sem hafði sem betur fer verið seinkað um 3 mínútur. Það var ekkert smá gott að komast til Svanhildar og slappa af. Ég hafði ekki orku í að gera mikið en við fórum þó upp til Niagra í grenjandi rigningu og versluðum smá. Eftir 4 daga keyrðum við niður til New York og gistum hjá annarri frænku minni. Veðrið lék ekki beinlínis við okkur en við náðum þó að sjá allt það helsta. Eftir 3 daga í borginni var komið að heimför. Ég skælbrosti þegar flugfreyjan sagði ,,Velkomin heim!". Ísland tók vel á móti mér með 1°C, háa hífandi roki og eldgosi, eins og því einu er lagið!